skip to Main Content
RÁÐGJÖF / SPURT OG SVARAÐ

Að hefja rekstur er stór þröskuldur fyrir marga. Það eru ótrúlega margir sem starfa sem verktakar. Geta verið tímabundin verkefni, tilfallandi aukavinna eða sem aðalstarf.

Vinnuframlag (eða þjónustuframlag) er langalgengasta rekstrarfyrirkomulagið. Líka að verktaki starfi sem einyrki (er þá ekki með starfsmenn á launum). Oftast er þá um frekar einfaldan rekstur að ræða. Svörin að neðan miðast við þetta einfalda rekstrarfyrirkomulag.

Við höfum fengið margar spurningar frá þeim sem eru að hefja rekstur. Þess vegna varð þessi síða til og reynt er að svara spurningum sem einfaldastan hátt. Vonandi getur hún gagnast einhverjum sem eru að hefja rekstur. (Neðst á síðunni eru gagnlegir veflinkar).

ÉG ER AÐ FÁ NOKKRAR VERKTAKAGREIÐSLUR Á ÁRI SEM ERU MÍNAR TEKJUR, ER EITTHVAÐ SEM ÉG ÞARF AÐ STANDA SKIL Á?

Ef tekjur eru 550.000 kr. eða lægri á árinu fellur það utan staðgreiðslu. (Þá þarf ekkert að gera nema færa tekjur og gjöld inn á skattframtalið).

Ef tekjur ársins eru 2.000.000 kr. (án vsk) eða lægri á einu ári, þá þarf ekki að standa skil á virðisaukaskatti. En það er valkvætt.

Við þessu má bæta að það er algengur misskilningur um að tekjur undir ákveðnu lágmarki séu skattfrjálsar. Þetta er ekki rétt, allar tekjur eru skattskyldar. T.d. utan staðgreiðslu merkir að tekjuskatturinn er greiddur eftir á með álagningarseðlinum.

ÉG ER AÐ HEFJA REKSTUR OG Á HVERJU ÞARF ÉG AÐ STANDA SKIL Á?

Það þarf að senda skilagreinar fyrir tekjuskatt og tryggingargjaldi til Skattsins af launum/reiknuðu endurgjaldi í hverjum mánuði. Send sameiginlega í einni skýrslu sem kallast skil á staðgreiðslu.

Til viðbótar þarf að senda skilagreinar fyrir iðgjald launþega, mótframlag vinnuveitanda og endurhæfingarsjóð, til lífeyrissjóðs mánaðarlega. Send sameiginlega í einni skýrslu sem kallast skil á lífeyrisiðgjöldum.

Getur verið nóg að senda skilagreinar til Skattsins og lífeyrissjóðs, einu sinni á ári (fyrir tímabilið jan-des), ef tekjur eru lægri en 1.000.000 kr á ársgrundvelli.

Ef starfsemin er virðisaukaskattskyld þá þarf að skila inn virðisaukaskattskýrslu á tveggja mánaða fresti(Jan-feb, mar-apr, …)

Ef tekjurnar eru 4.000.000 kr (án vsk) eða lægri á ársgrundvelli, þá þarf eingöngu að skila eina virðisaukaskattskýrslu á ári (fyrir tímabilið jan-des).

Síðan þarf að fylla út rekstrarskýrslu sem fylgir með framtalinu, einu sinni á ári.

Öll þessi skil er hægt að framkvæma og senda rafrænt. Á það má benda að þegar skilagreinar eru send inn, þá stofnast kröfur frá innheimtuaðilum sjálfkrafa inn á (heima)banka, fljótlega á eftir.

HVENÆR ÞARF ÉG AÐ STANDA SKIL Á OPINBERUM GJÖLDUM?

Skilagreinar fyrir staðgreiðslu þarf að senda til Skattsins á mánuðinum á eftir, með eindag kringum 15 hvers mánaðar. T.d. ef vinnan fer fram í janúar, þá er staðgreiðslan reiknuð og send inn í byrjun febrúar, með eindag 15.feb.

Skilagreinar til lífeyrissjóðs er með eindag mánuðinum á eftir, kringum lok mánaðarins. T.d. ef vinnan fer fram í janúar, þá er lífeyrisiðgjöldin reiknuð og send inn í byrjun febrúar, með eindag 28.feb.

Ef ein skilagrein er send á ári vegna staðgreiðslu og iðgjalda, fyrir tímabilið jan-des, þá fer uppgjörið fram í byrjun janúar árið eftir, með eindaga 15 og 31.jan.

Virðisaukatímabilin eru sex á ári, jan-feb (með eindag 5.apr), mar-apr (með eindag 5.jún) og þannig koll af kolli. Virðisaukaskatturinn er þá gerður upp eftir tímabilið, t.d. fyrir tímabilið jan-feb, þá er uppgjörsmánuðurinn mars og vsk skýrsla send inn fyrir eindag, 5.apr.

Virðisaukaskattskýrsla sem senda á einu sinni ári fyrir tímabilið jan-des er með eindag 5.feb árið eftir.

Framtölin eru gerð í mars, árið eftir rekstrarár og eru þá lokaskil ársins. Álagningarseðlar eru gefnir út í júní og eru þá lokauppgjör á skattinum. Almennt er rekstrarár sama og almanaksár.

ÉG ER AÐ FÁ VERKTAKAGREIÐSLUR SEM ERU MÍNAR TEKJUR, ÞARF ÉG AÐ GEFA ÚT REIKNINGA?

Já og þegar um prentuð eintök er um að ræða, þá þarf að gefa út reikninga sem eru fyrirfram númeraðir. Þeir eiga að vera í þríriti og viðskiptavinurinn á að fá frumritið. Hin ritin á að geyma og nota í bókhaldið.

Hægt er að kaupa blokkir sem á stendur “reikningur” með 50 reikningum í þríriti í flestum bókabúðum.

Ekki er leyfilegt að búa til reikninga t.d. í word eða excel.

Hægt er að nota rafræn sölukerfi til að útbúa og gefa út reikninga. Mörg fyrirtæki bjóða upp á þessa þjónustu. Leyfilegt er að nota rafræn sölukerfi sem eru samþykkt af Skattinum (hægt að sjá lista inn á heimasíðu Skattsins).

Þar sem rafræn sölukerfi þurfa að vera samþykktur af Skattinum þá er ekki leyfilegt að nota rafræn sölukerfi á erlendum heimasíðum.

Við mælum með inexchange.is, en kerfið er notendavænt, sendir rafræna xlm reikninga og er frítt upp að 100 reikninga.

HVAÐ ÞARF AÐ KOMA FRAM Á REIKNINGI? HVERNIG ER FORM REIKNINGS?

Á reikningi á alltaf að standa orðið “reikningur”. Reikningsnúmer á alltaf að koma fram á reikning. Í rafrænni sölukerfi gerist það sjálfkrafa en á handskrifuðum reikningum eru númerin fyrirfram áprentuð.

Reikningsnúmer eiga að vera í réttri töluröð, 1,2,3,4 … og mikilvægt að henda ekki reikning, þó að hann sé ónýttur svo að það vanti ekki númer í talnaröðinni. Þetta atriði á eingöngu við með handskrifaða reikninga, þar sem ekki er hægt að eyða reikning í rafrænum sölukerfum.

Það sem þarf að koma fram á reikningi er:

  1. Útgáfudagur
  2. Nafn og kennitala kaupanda
  3. Nafn, kennitala og vsk númer seljandans
  4. Tegund sölu, (þ.e. lýsing á hinu selda)
  5. Magn
  6. Einingarverð
  7. Heildarverð
  8. Fjárhæð vsk
  9. Skatthlutfall, (11% eða 24%)

Að það standi á reikninginum að hann uppfylli skilyrði reglugerðar nr. 505/2013, ef hann er útgefinn af rafrænu sölukerfi.

Gott er að skoða reikninga t.d. frá hinum og þessum verslunum til að sjá hvernig þeir eru uppbyggðir.

GET ÉG NOTAÐ KOSTNAÐ Á MÓTI MÍNUM TEKJUM / OG INNSKATT Á MÓTI ÚTSKATTI EF STARFSEMIN MÍN ER VIRÐISAUKASKATT SKYLD?

Já og það er mjög mikilvægt að telja fram allan kostnað og innskatt sem tengjast rekstrinum, til að lágmarka skattbyrðina. Í hvert sinn sem keypt er vara eða þjónusta, þá þarf að fá reikning frá seljanda. Reikningur er staðfesting á að viðskiptin hafi farið fram. Ennfremur þarf vsk númer seljanda að vera opið til þess að heimilt sé að nýta innskatt.

Reikningur er sönnunargagn og það er mikilvægt að geyma alla reikninga. Reikningur er forsenda þess að hægt er nýta kostnað á móti tekjum og ef nota á innskatt á móti útskatt. Þar sem reikningur er sönnunargagn þá skiptir form hans og rétt uppsetning máli, svo að hann haldi gildi sínu.

Kreditkorta-, bankayfirlit og kvittanir duga ekki, heldur verður það að vera frumrit reiknings þar sem stílað er á kaupanda.

Reikningur er staðfesting á að viðskipti hafa farið fram en kvittun er staðfesting á að reikningurinn sé greiddur.

Ef reikningur er ekki afhendur þar sem viðskiptin fara fram, þá er hann sendur eða gerður aðgengilegur á annan hátt. Sífellt sjaldgæfara er að reikningur sé sendur í hefðbundnum bréfapósti. Í staðinn er hann sendur í tölvupósti, gerður aðgengilegur undir rafræn skjöl í heimabanka eða inn á heimasíðu seljanda.

HVAÐ MÁ ÉG NOTA SEM KOSTNAÐ OG INNSKATT Í MÍNUM REKSTRI?

Almennt séð er það kostnaður og innskattur sem tengist rekstrinum. „Frá tekjum er heimilt að draga rekstrarkostnað, það eru þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við“. (Lög um tekjuskatt).

Heimildir til að nýta innskatt eru þrengri en heimilt er að nota sem frádráttarbæran kostnað. Yfirleitt er það þá einhverskonar óbeinn kostnaður sem ekki er heimilt að nýta innskatt af, en er samt heimilt að nota sem frádráttarbæran kostnað.

Flokkun eftir tegund kostnaðar. Hér eru dæmi um algengan kostnað (og innskatt, þar sem hann á við).

  1. Reiknað endurgjald (og/eða heildarlaun)
  2. Tryggingargjald (skattur sem má gjaldfæra)
  3. Mótframlag í lífeyrissjóð
  4. Endurhæfingarsjóður (skylda, lífeyrissjóðir innheimta)
  5. Rekstrarkostnaður (kostnaður sem tengist með beinum hætti, t.d. málning hjá málara)
  6. Aðkeypt þjónusta (þegar er verið að kaupa þjónustu / vinnuframlag af öðrum)
  7. Skrifstofukostnaður (t.a.m. áskriftir – [símagjöld, hugbúnaður, bókhaldskerfi], skrifstofuvörur)
  8. Gjaldfærð áhöld og tæki (tölva, prentari, skrifstofustóll)
  9. Rekstrarkostnaður ökutækis* (sjá nánar skýringar neðar), (innskattur almennt ekki nýttur hér)
  10. Sölukostnaður (auglýsingar)
  11. Ferðakostnaður (innskattur almennt ekki nýttur hér)

En hér eru nokkur dæmi um kostnað sem er ekki augljós, en er frádráttarbær.

  1. Kaffiveitingar í vinnutíma og kostnaður við námskeið sem tengjast starfinu beint. (Innskattur almennt ekki nýttur hér).
  2. Fatnaður sem er merktur starfseminni og öryggis- eða hlífðarfatnaður.
  3. Risna 0,5% og styrkir til líknarmála 0,75% af tekjum má gjaldfæra. (Innskattur almennt ekki nýttur hér).
  4. Samgöngustyrkir (strætó, hjólreiðar, – hámark 96.000 kr, 2019), orlofshúsnæði (t.d. sumarbústaðir, hjólhýsi, – hámark 55.000 kr, 2019).
  5. Heilsurækt (t.d. íþróttaiðkun, endurhæfing, – hámark 60.000 kr, 2019) – per starfsmann.

*Rekstrakostnaður ökutækis má gjaldfæra, en ekki nýta innskatt af, nema ef það er á rauðum númerum eða uppfyllir ákveðin skilyrði.

Rekstrakostnaður ökutækis sem líka er notaður í eigin þágu má gjaldfæra, en ekki að fullu.  Það þarf að hlutfalla notkun á milli eigin nota og vegna reksturs og setja síðan rekstrarkostnaðinn í framtalið. Halda þarf akstursdagbók til að sanna notkun, vegna reksturs.

Rekstrarkostnaður ökutækis eru:

  1. eldsneyti
  2. viðgerð og varahlutir
  3. dekk og dekkjaskipti
  4. smurning
  5. tryggingar
  6. bifreiðagjöld
  7. annar rekstrarkostnaður, t.d. bílaþvottur, skoðun, bílastæði
  8. fyrningar

Akstur á milli heimilis og vinnustaðar telst ekki frádráttarbær kostnaður.

HVAÐ ÞARF AÐ GEYMA REIKNINGA FYRIR TEKJUM OG KOSTNAÐI, LENGI?

Í sjö ár. Hér er tilvitnun úr lagatexta: “Allar bækur, sem fyrirskipaðar eru í lögum þessum, ásamt bókhaldsgögnum og fylgiskjölum, […], skulu varðveittar hér á landi á tryggan og öruggan hátt í sjö ár frá lokum viðkomandi reikningsárs”. (Lög um bókhald).

HVAÐ MERKIR FÆRSLA BÓKHALDS?

Hér er fjallað um einfalt bókhald hjá einyrkja. Það er skráningarskylda og það þarf að skrásetja hver og ein viðskipti, hvort sem það er sala eða kaup.

Ekki er nauðsynlegt að færa tvíhliða bókhald, debet og kredit hjá einyrkja með einfaldan rekstur og er sú heimild tekin fram í lögum um bókhald. (Að uppfylltum skilyrðum þó, t.a.m. heimilt hjá “þjónustu þar sem fyrst og fremst er seld vinna…”).

Það þarf að skrásetja allar færslur vegna sölu og kostnaðar í dagbók. Hver færsla fær sitt einstaka númer, í réttri töluröð (1,2,3,4,…), sem skráð er í dagbók og samsvarandi númer skráð á reikning sem kallast þá fylgiskjal. Það er gert til að hægt sé að rekja færslu frá dagbók til fylgiskjals og öfugt.

Hægt er að notast við excel skjal. Til að flýta fyrir er hægt að sækja hreyfingarlista í excel frá banka. Lína er lárétt og dálkur lóðréttur. Í hverri línu er ein færsla, þar sem verið er að selja eða kaupa. Í hverjum dálk, þarf að skrá eftirfarandi:

  1. fylgiskjalsnúmer (dálkur 1).
  2. dagsetning (dálkur 2),
  3. nafn seljanda/kaupanda (dálkur 3),
  4. tegund kostnaðar (hvað er verið að kaupa) (dálkur 4), *sjá neðar skýringu…
  5. upphæð v/sölu (upphæð án vsk í vsk skyldri starfsemi) (dálkur 5),
  6. upphæð v/gjalda (upphæð án vsk í vsk skyldri starfsemi, ef nýta á innskattinn annars m/vsk) (dálkur 6),
  7. vsk upphæð, (útskattur v/sölu og innskattur v/gjalda), (sleppa ef ekki er um vsk skylda starfsemi um að ræða) (dálkur 7),

(Afreiknað: upphæð m/vsk deilt með 1,24 = upphæð án vsk).

*Varðandi lið 4. [tegund kostnað (hvað er verið að kaupa) (dálkur 4)], þá er þetta gert til að flokka eftir tegund kostnaðar. Sjá nánar um helstu tegundir fyrir ofan, undir liðnum “hvað má ég nota sem kostnað og innskatt í mínum rekstri”.

Ávallt skal draga virðisaukaskattinn frá ef hann er lagður á eða nýttur, í dálk 5 og 6, og hann síðan settur í dálk nr.7.

Óþarfi er að bókfæra reiknað endurgjald og launatengda liði. Þetta er hvort sem er allt skráð í staðgreiðsluskrá RSK. En þarf samt að taka saman fyrir framtal.

Þegar búið er að skrá allar færslur ársins (1.jan – 31.des), þá þarf að leggja saman allar upphæðir, s.s. sölu og kostnað (samtala á hverja tegund) og samtalan færð inn á rekstrarskýrslu sem fylgir framtalinu.

HVERNIG KEMST ÉG Á SKRÁ HJÁ SKATTAYFIRVÖLDUM OG LÍFEYRISSJÓÐI, EF ÉG ÞARF AÐ GERA SKIL Á STAÐGREIÐSLU, IÐGJÖLDUM Í LÍFEYRISSJÓÐ OG VIRÐISAUKASKATTI?

Sækja um í launagreiðendaskrá og um vsk númer. Hægt er að sækja umsóknareyðublað inn á heimasíðu Skattsins, (eyðublað RSK 5.02 er umsóknareyðublað bæði fyrir launagreiðendaskrá og vsk númer).

Senda síðan í bréfi (eða skanna og senda í tölvupósti) til Skattsins. Innan nokkra daga eru veflyklar (fyrir staðgreiðslu og vsk) gerðir aðgengilegir hjá Skattinum.

Síðan þarf að velja sér lífeyrissjóð og sækja um veflykil hjá viðkomandi (hægt að gera rafrænt á heimsíðu viðkomandi lífeyrissjóðs). Ekki þarf að senda inn formlega umsókn. Hægt er að senda inn skilagrein um leið og veflykill er kominn í hendurnar.

Við þessu má bæta að hægt er að velja á milli nokkra lífeyrissjóða og inn á síðu Skattsins er hægt að sjá yfirlit yfir alla lífeyrisjóði sem bjóða upp á skylduaðilda-sjóði og/eða séreignasjóði.

HVAÐ MERKIR REIKNAÐ ENDURGJALD?

Til einföldunar er hægt að segja að reiknað endurgjald og laun sé það sama. þ.e.a.s. heildarlaun en ekki útborguð laun.

Reiknað endurgjald og heildarlaun er stofn þar sem gjöld eru reiknuð af. Af þeim stofni er reiknuð út öll launatengdu gjöld. Til viðbótar má benda á að launþegi fær útborguð laun, en eini tilgangur reiknaðs endurgjalds er að mynda stofn til að reikna út frá.

Þegar launþegi fær launaseðil í hendurnar, þá sér hann ekki þann hluta sem vinnuveitandi stendur skil á og greiðir. En verktakinn er bæði launaveitandi og launþegi. Launþeginn þarf ekki að standa skil á neinu og ber ekki ábyrgð á þeim, heldur gerir vinnuveitandinn það. Verktakinn ber þessa sömu skyldu og ábyrgð og vinnuveitandi launþegans gerir.

Hvers vegna reiknað endurgjald? Til að uppfylla skilyrði um staðgreiðslu á opinberum gjöldum.

HVERNIG VEIT ÉG HVAÐ ÉG Á AÐ HAFA Í REIKNAÐ ENDURGJALD?

Skatturinn gefur út hvað verktakar eigi að reikna sér í endurgjald í upphafi hvers árs. Skatturinn gefur út viðmiðunarflokka og flokkað er út frá tegund starfseminnar. Hægt er að sjá þessa flokka inn á heimasíðu Skattsins. Flokkunin gengur út frá; því hærra menntunarstig og ábyrgðarstaða (mannaforráð), því hærra reiknað endurgjald.

En það sem kemur ekki þar fram en þarf að huga að er, hversu hátt er starfshlutfallið og ekki síst, hvernig gengur reksturinn. Ef verktakastarfsemin krefst ekki nema 50% starfshlutfalls þá er réttast að reikna endurgjaldið svona: 0,50 x reiknað endurgjald skv viðmiðunarflokk Skattsins = reiknað endurgjald sem notað er.

Ef reiknað endurgjald eftir viðmiðunarflokk Skattsins er hærri en hagnaðurinn, þá er hægt til viðmiðunar að reikna endurgjaldið m.v. 85% af hagnaði. Tekjur – kostnaður = hagnaður x 0,85 = reiknað endurgjald. Ef stuðullinn er hærri en 85% þá endar reksturinn í tapi.

Ekki er ráðlegt að reiknað endurgjald verði orsök að tapi í rekstri, en reiknað endurgjald fer inn í kostnað, í jöfnunni; Tekjur – kostnaður = hagnaður. (Sjá nánar um þessa jöfnu, neðar “hvað er rekstur”).

HVAÐ ER REKSTUR?

Flestir hafa reynslu af rekstri heimilisins. Í meginatriðum er rekstur verktakans eins. Inn koma tekjur, til frádráttar kemur kostnaður og eftir stendur (vonandi) afgangur. Flest okkar stefna að því að eiga eftir afgang og það gildir um reksturinn líka.

Tekjur – kostnaður = hagnaður. Þessi jafna er grundvallarlögmál í öllum rekstri.

Við sölu verða til tekjur. Kostnaður eru þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við.

Heildarlaun og reiknað endurgjald, mótframlag í lífeyrissjóð, tryggingargjald er líka kostnaður.

En tekjuskattur og iðgjald launþega í lífeyrissjóð er EKKI kostnaður.

Því hærra sem reiknað endurgjald og/eða heildarlaun eru, því lægri verður hagnaðurinn. Kosturinn við það er að greiðsla á opinberum gjöldum haldast í hendur við tekju-innstreymið og minni skatt þarf að greiða eftir á, þegar álagningarseðillinn er gefinn út.

HVERNIG ER REKSTURINN SKATTLAGÐUR?

Best er að ímynda sér þrjú sjálfstæð kerfi.

Fyrsta kerfið er þegar hagnaður er skattlagður. [Tekjur – kostnaður = hagnaður]. Hagnaður er skattlagður eftir að rekstrarniðurstaða ársins liggur fyrir, með reikningsskiladag 31/12 hvers árs og greiddur eftir á (með álagningarseðlinum).

Kerfi númer tvö er virðisaukaskattskerfið. það er sjálfstætt kerfi sem er fyrir utan það kerfi sem fjallað er um hér á undan (kerfi númer eitt). Þess vegna eru allar upphæðir sem færðar eru inn sem tekjur og gjöld, ávallt án virðisaukaskatts (í kerfi númer eitt). (Nema ef starfsemin er undanþegin virðisaukaskatti, þá er kostnaður færður m/vsk. Líka ef starfsemin er virðisaukaskattskyld, þá galdfærist sá kostnaður, sem rekstraraðilinn ætlar ekki að nota álagðan innskatt á móti útskatt, sem kostnaður m/vsk).

Virðisaukaskattsjafnan er þessi: Útskattur – innskattur = virðisaukaskattur til greiðslu. Útskattur er lagður á sölu en álagður innskattur á kostnaði nýttur. Með virðisaukaskattskerfinu er verið að skattleggja hver og ein viðskipti milli aðila.

Kerfi númer þrjú eru skattar á laun og reiknað endurgjald. Þeir skattar eru tryggingargjald til RSK og iðgjald launþegans, mótframlag vinnuveitandans og endurhæfingarsjóður til lífeyrissjóðs. Stofnin er þá heildarlaun og/eða reiknað endurgjald.

Tekjuskattur af hagnaði og af launum/reiknuðu endurgjaldi er SAMI skatturinn. Persónuafslátturinn gengur upp í hvort tveggja hjá verktökum (rekstur á eigin kennitölu). (Hér til einföldunar eru iðgjöld og mótframlag til lífeyrissjóðs flokkaðir sem skattar, enda margt sameiginlegt með þeim).

Síðan eru ýmsir aðrir skattar (sem ekki verður fjallað nánar um hér) sem eru lagðar á reksturinn. Þeir eru fyrirframgreiðsla þinggjalda, fjármagnstekjuskattur, gistináttaskattur, skattar vegna fjármálaþjónustu, bifreiðagjald, olíugjald, áfengisgjald, búnaðargjald, jöfnunargjald alþjónustu, kílómetragjald, markaðsgjald, skilagjald, úrvinnslugjald, umhverfis- og auðlindaskattar, vörugjald og útvarpsgjald.

HVORT ER BETRA FYRIR MIG AÐ VERA LAUNÞEGI EÐA VERKTAKI?

Verktaki þarf að fá hærri tekjur (án vsk) en (heildar) laun launþega til að þeir standi jafnfætis. Þumalputtareglan er að verktaki fái 30% hærri tekjur (án vsk) en launþegi fær í (heildar) laun. (En þá er gert ráð fyrir að verktakinn sé ekki með neinn annan kostnað en launatengda liði)(Heildarlaun x 1,3 = tekjur verktakans).

“Þumalputtaregla”, þar sem það er huglægt hvernig réttindi og skyldur eru verðmetin, ofan á beinan kostnað, (beinn kostnaður eins og tryggingagjald og mótframlag í lífeyrissjóð).

Launþegi er með áunnin réttindi, t.d. uppsagnafrest, veikinda- og orlofsréttindi, ábyrgðasjóður launa o.s.frv og svo bætist líka við kostnaður verktaka sem þarf að greiða tryggingargjald til RSK, mótframlag og endurhæfingarsjóð til lífeyrissjóðs sem launþegi þarf ekki að gera.

Síðan er líka óbeinn kostnaður fyrir verktaka eins og að greiða bókara fyrir þjónustu, ýmsar tryggingar o.s.frv. Við þessu má bæta að verktaki þarf að bera ábyrgð á öllum skilum og tryggingum sjálfur sem launþegi er laus við.

HVAÐ MEÐ ÁBYRGÐ VERKTAKA?

Á það má benda að ef virðisaukaskattur og staðgreiðsla tekjuskatts af launum/reiknuðu endurgjaldi er greitt eftir eindag þá reiknast 1% á dag fyrir hvern dag eftir eindaga, þó ekki hærra en 10%.  1% á dag jafngildir 365% ársvexti en vextir á innistæðum eru mældir í ársvöxtum. Frá og með 11 degi þá er ekki lengur lagðir á 1% álag heldur eingöngu dráttavextir.

Eftir tíu daga fram yfir eindag þá hafa bæst við 10% ofan á höfuðstólinn.

Virðisaukaskattur og staðgreiðsla tekjuskatts af launum/reiknuðu endurgjaldi hafa þá sérstöðu að þessir fjármunir eru alltaf í eigu ríkisins en verktakar eru innheimtumenn þess.

Annað sem ber að varast er að ef tekjur eru ekki rétt uppgefnar í framtali þá getur verktakinn átt á þá hættu að fá 25% (sektar) álag ofan á tekjur sem ekki voru gefnar upp. En Skatturinn fær til sín verktakamiða senda frá rekstraraðilum sem hafa keypt til sín þjónustu / vinnuframlag frá verktökum, sem eru síðan bornar saman við uppgefnar tekjur hans.

EF ÉG HEF REKSTUR OG GERIST VERKTAKI, HVERSU MIKIÐ AF TEKJUM FER Í MINN VASA?

Peningarnir fara fyrst í vasa verktakans svo ágætt er að gera sér grein fyrir því, hversu mikið verður eftir af þeim, þegar búið er að gera upp og greiða í skatta og opinber gjöld.

Það getur líka liðið langur tími frá því að peningar fara fyrst í vasann þar til að greiða þarf skatt af þeim. Hluti af tekjum sem verða til í janúar 2019, geta verið skattlagðir í júní 2020 (með álagningarseðlinum), s.s. tekjuskattur af hagnaði.

Sama hjá þeim sem eru í ársskilum með virðisaukaskattinn. Virðisaukaskattur sem verður til t.d. í janúar 2019 er greiddur í febrúar 2020. (Bankar bjóða upp á innistæðureikninga fyrir virðisaukaskattinn sem gott er að nota. Þá er hægt að taka virðisaukaskattinn strax frá og leggja inn á hann).

Ef salan er undanþegin virðisaukaskatti, þá er þumalputtareglan að c.a. 60% fari í vasann og 40% í skatta. (Reyndar því hærri/lægri sem tekjurnar verða þá minnkar/eykst vægi persónuafsláttar, en í þessu dæmi er m.v. 7 millj í árstekjur).

Ef salan er með virðisaukaskatti (24%) þá er þumalputtareglan að c.a. 50% fari í vasann og 50% í skatta, (álagður virðisaukaskattur er þá hafður með, enda fer hann fyrst í vasa verktakans).

ER HAGSTÆTT AÐ STOFNA FÉLAG / FYRIRTÆKI FYRIR MINN REKSTUR?

Ekkert endilega, það fer eftir aðstæðum. Hér verður fjallað um ehf en t.d. slf sem vinsælt var að stofna er úr sögunni þar sem búið er að fella niður lagagrein sem var ástæða fyrir stofnun þeirra.

Skattalegt hagræði þess að vera með félag er ekki lengur til staðar. Skattar eru jafnháir hjá ehf annars vegar og rekstur á eigin kennitölu hins vegar. Það er dýrara að vera með félag heldur en rekstur á eigin kennitölu. Það kostar að stofna félag, kostar meira að gera það upp á hverju ári, heldur en einstaklingsrekstur og kostar að leggja það niður.

Mun auðveldara er fyrir verktaka með rekstur á eigin kennitölu að hefja rekstur og hætta (og kostar ekkert).

Helstu kostirnir við ehf er að þá myndast skel utan um reksturinn og takmörkun ábyrgðar.

Ef fleiri en einn koma að rekstrinum þá er formið ehf langhentugast.

HVERSU VÍÐTÆKAR HEIMILDIR HAFA SKATTAYFIRVÖLDIN TIL AÐ SKOÐA BÓKHALDSGÖGN?

Víðtækar, hér er tilvitnun úr lagatexta:

“Öllum aðilum, bæði framtalsskyldum og öðrum, er skylt að láta skattyfirvöldum í té ókeypis og í því formi sem óskað er allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þau beiðast og unnt er að láta þeim í té. Vegna skatteftirlits samkvæmt lögum þessum getur [ríkisskattstjóri og menn sem hann felur] skatteftirlitsstörf, krafist þess að framtalsskyldir aðilar leggi fram til könnunar bókhald sitt og bókhaldsgögn, […].

Enn fremur hafa þessir aðilar aðgang að framangreindum gögnum og aðgang að starfsstöðvum framtalsskyldra aðila og birgðageymslum og heimild til að taka skýrslur af hverjum þeim sem ætla má að geti gefið upplýsingar er máli skipta.

Sömu heimildir hefur [skattrannsóknarstjóri ríkisins] vegna rannsókna ríkisins getur í þágu rannsóknar máls leitað úrskurðar héraðsdóms um leit og haldlagningu gagna á heimilum og öðrum stöðum sem svo og öllum stofnunum, bönkum, sparisjóðum og öðrum peningastofnunum.

Gegni einhver ekki upplýsingaskyldu sinni má vísa máli til [rannsóknar lögreglu].” (Lög um staðgreiðslu opinberra gjalda)

ER EKKI BEST FYRIR MIG AÐ LEITA TIL LÖGGILTS ENDURSKOÐANDA TIL AÐ FÁ AÐSTOÐ OG HVENÆR ÞARF AÐ LEITA TIL ÞEIRRA?

Félög, sem fara fram úr tvennum af eftirfarandi stærðarmörkum tvö ár í röð: eignir nema 120.000.000 kr., rekstrartekjur nema 240.000.000 kr., fjöldi ársverka á reikningsári er 50.

Félög á hluta- og/eða skuldabréfamarkaði.

Félagsmenn, sem fara með minnst einn fimmta hluta atkvæða, geta (á fundi) krafist þess að kosinn verði a.m.k. einn endurskoðandi.

Þetta er ekki tæmandi listi en gefur smá hugmynd um hvenær þarf að leita til löggilts endurkoðanda.

HVERNIG FINN ÉG SKATTSTOFNA, HLUTFÖLL OG HVERNIG REIKNA ÉG ÚT SKATTANA?

Útreikningar m.v. lágmarksskyldu árið 2019.

Reiknað endurgjald og staðgreiðsla,

  • Reiknað endurgjald x 0,08 = Mótframlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð
  • Reiknað endurgjald x 0,04 = Iðgjald launþega í lífeyrissjóð
  • (Reiknað endurgjald + mótframlag í lífeyrissjóð) x 0,066 = Tryggingargjald
  • Persónuafsláttur = 56.447 kr per mánuð
  • ((Reiknað endurgjald – iðgjald í lífeyrissjóð) x 0,3694) – persónuafsláttur = Lægra skattþrep tekjuskatts
  • ((Reiknað endurgjald – iðgjald í lífeyrissjóð)) sem er hærra en 927.087)  x 0,4624 = Hærra skattþrep tekjuskatts

Tekjuskattur af hagnaði.

  • Tekjur – kostnaður = hagnaður
  • Hagnaður x 0,3694 = Lægra skattþrep tekjuskatts
  • (Hagnaður, hærri en 11.125.044)  x 0,4624 = Hærra skattþrep tekjuskatts

*Ef persónuafsláttur er ekki fullnýttur þá kemur hann til frádráttar til lækkunar á tekjuskattinum af hagnaðinum. **Ef reiknað endurgjald plús hagnaður mínus iðgjöld í lífeyrissjóð, fer samtals yfir 11.125.044 kr, þá fer upphæðin sem fer yfir, á hærra þrepið.

Virðisaukaskattur, (11 sett í stað 24, ef um 11% vsk hlutfall er um að ræða). Upphæð er stofnverð.

  • Upphæð án vsk x 0,24 = Vsk upphæð
  • Upphæð með vsk / 1.24 = Upphæð án vsk
  • Vsk upphæð / 0,24 = Upphæð án vsk

HVERNIG ER AÐ FÁ RÁÐGJÖF FRÁ SKATTINUM?

Skatturinn býður upp á góða þjónustu og þar er fínt að fá upplýsingar um praktísk atriði.

En það ber að hafa í huga að skattayfirvöld er ekki hlutlaus stofnun. Vísirinn leitar frekar til hagsmuni ríkisins heldur en skattgreiðenda.

HVERT GET ÉG LEITAÐ EF MIG VANTAR NÁNARI UPPLÝSINGAR UM BÓKFÆRSLU OG SKATTSKIL?

Heimasíða Skattsins (www.rsk.is), ágætt að byrja þar til að afla sér frekari upplýsinga.

Hér eru nokkrar flýtileiðir inn á Skattinum,

Annað,

 

Allar upplýsingar, útreikningar, textar á þessari síðu, eru settar fram án ábyrgðar.

Back To Top